Félagaþróun er eitt stærsta málefni þessa starfsárs. Félögum hefur heldur fækkað og við þurfum að halda vel á spöðum, til að viðhalda stöðu okkar sem sérstakt umdæmi innan Rótarý. Það er áskorun að fá nýja félaga að nær öllu félagastarfi hér á landi. Sjálfboðaliðastarf er gríðarlega mikilvægt og það verður seint ofmetið.
Rótarý eru ein öflugustu mannúðarsamtök í heiminum og við þurfum að halda þeirri staðreynd meira á lofti í samtölum okkar um hreyfinguna. Við eigum líka að ræða mun meira um það frábæra og skemmtilega starf, sem er unnið innan allra klúbba hér á landi. Við stöndum fyrir gríðarlega góðum og áhugaverðum verkefnum víða, en segjum of lítið frá því starfi, bæði okkar á milli og við almenning. Það er alveg ljóst, að það hafa allir áhuga á að láta gott af sér leiða og það er einfalt innan raða Rótarý.
Félagaþróunarnefnd Rótarý mun funda með forsetum og verðandi forsetum þann 21,.janúar til að ræða þess mál og móta stefnu, hvernig við getum best viðhaldið og stækkað klúbbana okkar. Þetta er verkefni okkar allra og það er rétt að hvetja alla Rótarýfélaga um að hugsa um vini eða ættingja, sem við teljum að geti látið gott af sér leiða innan Rótarý og geti eflt starf innan klúbbanna okkar. Við skulum aldrei gleyma því, að það er og á að vera gaman í Rótarý.