Heimsókn til tveggja klúbba í Kraká – Póllandi

laugardagur, 14. október 2023

VFS

 Rótarý Reykjavík Grafarvogur sótti borgina Kraká heim í október og notaði tækifærið til að hitta bæði rótaractklúbb og rótarýklúbb – sem báðir eiga heimahöfn í Kraká.

Við hittum 4 félaga úr rótaractklúbbnum Cracow Wawel í glæsilegri byggingu í miðborginni en þar hafa þau aðsetur. Þetta voru hress ungmenni sem þrátt fyrir ungan aldur klúbbsins hafa tekið þátt í mörgum frábærum verkefnum sem ýmist þau sjálf stjórna eða vinna með öðrum. Á myndunum má sá unga fólkið, forsetann Weroniku Forc og þrjá félaga úr klúbbnum.

Rótarýklúbburinn Cracow Castle Niepołomice var ekki með fund föstudagskvöldið 6. október en úr varð að forsetinn Marek Nawalaniec og nokkrir félagar hittu okkur á hótel Polonia sem er þeirra fundarstaður. 

Á fundinum var líka rótarýmaðurinn Yaroslav Halytskyy frá Úkraínu en hann flutti til Kraká þegar stríðið hófst. 

Fundurinn var óformlegur en hófst með borðhaldi. Gestir fengu í hendur matseðil og völdu sér það sem hjartað (eða maginn) girntist ásamt drykkjum. Miklar samræður áttu sér stað milli félaga á meðan á borðhaldi stóð. 

Jón Þór Sigurðsson forseti kvað sér hljóðs og kynnti íslenska klúbbinn og starf hans. Tvær konur þýddu jafnóðum á pólsku fyrir forsetann og aðra gesti sem ekki skildu ensku. Íslenski klúbburinn fékk fána bæði frá pólska klúbbnum og þeim úkraínska. 

Að því loknu stóð pólski forsetinn upp og kynnti á sama hátt sinn klúbb, sem telur 24 félaga og verkefni klúbbsins. Forsetinn er jafnframt aðstoðarumdæmisstjóri síns umdæmis. 

Eftir kynningarnar hófst spjall að nýju og að því loknu stóð Jón Þór upp og bað fundargesti að fara með fjórprófið að vanda, eftir að hafa útskýrt siðinn fyrir gestgjöfunum. Þau fóru með sitt á pólsku um leið. 

Þetta var ánægjuleg kynning og mun rótarýklúbbur Grafarvogs hitta klúbbinn aftur á netfundi um miðjan október. 




Rótarý Reykjavík Grafarvogur sótti borgina Kraká heim í október sl.